Vörumerki erlendis

Vörumerki sem skráð eru hjá Einkaleyfastofunni er einungis vernduð á Íslandi.  Ef markaðssetning er fyrirhuguð erlendis, er mikilvægt að skrá vörumerkið einnig í öðrum löndum.

Hafi verið sótt um vörumerki hér á landi er hægt innan 6 mánaða frá umsóknardegi að leggja inn umsókn sama efnis í öðri ríki og krefjast forgangsréttar frá upphaflegu umsókninni. Seinni umsóknin telst þá lögð inn sama dag og sú fyrsta. Engin tími tapast þ.a.l. ef byrjað er með íslenska grunnumsókn og fyrstu viðbrögð könnuð við henni áður en umsóknarferli erlendis er hafið.

Til þess leggja inn umsókn um skráningu vörumerkis í öðrum löndum þarf að gera eitthvað af eftirfarandi:

  • Fara í alþjóðlegt umsóknarferli hjá WIPO (Alþjóðahugverkastofnuninni). Alþjóðleg umsókn verður að byggja á umsókn sem síðar verður skráð, eða skráningu hér á landi. Vöru- og þjónustulistinn má ekki vera víðtækari en í íslensku  grunnumsókninni/skráningunni. Í umsókn um alþjóðlega skráningu þarf að tilgreina í hvaða ríkjum er óskað skráningar og er m.a. hægt að tilnefna lönd Evrópusambandsins í einu lagi.  Einkaleyfastofan getur haft milligöngu um slíka umsókn. 
  • Íslendingar eiga einnig kost á því að vernda merki sín innan Evrópusambandsins með því að leggja inn umsókn um svokölluð Evrópuvörumerki (e. European Union Trade Mark - EUTM) hjá Hugverkstofu Evrópusambandsins (e. European Union Intellectual Property Office - EUIPO). Ýmist er hægt að velja þessa leið með því að tilnefna Evrópusambandið í alþjóðlegri umsókn eða með milligöngu umboðsmanns sem staðsettur er innan Evrópusambandsins.
  • Sækja um skráningu vörumerkis í hverju landi fyrir sig. Ef aðeins er ætlunin að sækja um vernd í 1-3 löndum getur borgað sig að óska eftir vernd í hverju landi fyrir sig.