Vörumerki á Íslandi

Umsókn um vörumerki á Íslandi skal sækja um rafrænt eða skila útfylltu eyðublaði til Einkaleyfastofunnar.

Áður en umsókn er lögð inn er nauðsynlegt að kynna sér helstu skilyrði verndar og ígrunda vel fyrir hvaða vöru/þjónustu ætlunin er að nota vörumerkið og velja flokka samkvæmt því.

Gjaldskrá fyrir vörumerkjaumsókn á Íslandi. 

Umsóknargjöld eru ekki endurgreidd.

Hvaða vernd veitir vörumerkjaskráning?

Með vörumerkjaskráningu hjá Einkaleyfastofunni má, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, vernda auðkenni vöru og þjónustu, þ.e. vörumerki. Réttur sá sem settur er í vörumerkjalögum (sjá lög um vörumerki nr. 45/1997 með síðari breytingum) gefur eiganda vörumerkis einkarétt á að nota merkið hér á landi og getur hann þá bannað öðrum að nota í atvinnustarfsemi vörumerki sem eru eins eða lík vörumerki hans. Mikilvægt er því að hafa vörumerki skráð ef verja þarf það fyrir ágangi annarra.

Hve lengi gildir vörumerkjaskráning?

Vernd skráðs vörumerkis hefst á þeim degi sem umsókn er lögð inn og gildir í 10 ár frá skráningardegi. Að þeim tíma liðnum er hægt að endurnýja skráninguna til 10 ára í senn, eins oft og eigandi þess óskar.

Forgangsréttur

Vörumerki sem skráð eru hjá Einkaleyfastofunni er einungis vernduð á Íslandi. Alþjóðleg umsókn verður að byggja á íslenskri grunnumsókn sem síðar verður skráð, eða skráningu hér á landi, svo framarlega að umsóknin sé ekki eldri en sex mánaða. Vörumerkið verður að vera eins í báðum tilvikum og vöru- og þjónustulistinn má ekki vera víðtækari en fram kemur í íslensku grunnumsókninni. Alþjóðlega umsóknin telst þá fram komin samtímis umsókn/skráningu merkisins hér á landi. 

Viðvörun um falsaðar greiðslubeiðnir 

Einkaleyfastofunni hafa borist ábendingar um að íslenskum umsækjendum hafi borist erindi frá erlendum aðilum þar sem óskað er eftir greiðslu fyrir birtingu vörumerkja í erlendum gagnagrunnum.

Einkaleyfastofan hefur enga tengingu við þessa aðila og biður viðskiptavini sína um að greiða ekki umbeðin gjöld berist þeim svona erindi þar sem tilgangur þeirra virðist eingöngu vera sá að blekkja umsækjendur.