Vörumerki

Sérstök auðkenni vöru eða þjónustu til að nota í atvinnustarfsemi.

 

 

 • Af hverju ætti ég að sækja um skráningu á vörumerki?

  Vörumerki eru notuð til að merkja vörur og þjónustu. Vörumerki geta verið ýmiskonar sýnileg tákn, til dæmis orð og orðasambönd, myndir (lógó), heiti á fyrirtækjum, slagorð, umbúðir vöru o.fl. Með vörumerki getur þú aðgreint þínar vörur og/eða þjónustu frá vörum og/eða þjónustu annarra. Með því að sækja um skráningu hjá Einkaleyfastofunni er hægt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að fá merki skrásett og öðlast þannig einkarétt á notkun þess hér á landi. Meginreglan er sú að eigandi merkisins getur komið í veg fyrir að aðrir, í sömu eða svipaðri atvinnustarfsemi, geti notað merki sem eru eins eða lík. Réttur til vörumerkis getur stofnast með notkun þess, en með skráningu er auðveldara að sanna rétt sinn til viðkomandi vörumerkis.

   
  Skoða nánar vörumerki
 • Hvernig sæki ég um vörumerki?

  Einkaleyfastofan meðhöndlar umsóknir um skráningu vörumerkis. Til að sækja rafrænt um vörumerki þarf að fylla út umsókn um skráningu vörumerkis, og þarf umsækjandi að vera með rafræn skilríki eða íslykil. Umsókn á pappírsformi þarf að afhenda í afgreiðslu Einkaleyfastofunnar beint eða með pósti. 

  Sækja um
 • Hvað gerist eftir að ég hef lagt inn umsókn?

  Eftir að umsókn um skráningu vörumerkis hefur verið lögð inn og umsóknargjald hefur verið greitt er umsóknin rannsökuð með tilliti til form- og efnisskilyrða og hvort að hún uppfylli ákveðin skilyrði til skráningar. Uppfylli umsóknin öll skilyrði er vörumerkið skráð og birt í ELS-tíðindum, sem gefin eru út 15. hvers mánaðar. Umsækjanda er sent skráningarskírteini um einkarétt á merkinu eftir skráningu.

  Þegar vörumerki hefur verið skráð og birt hefur sá sem telur sig eiga betri rétt tvo mánuði til að leggja fram andmæli gegn skráningunni. Eftir það getur hver sá sem telur sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta lagt inn beiðni um ógildingu skráningarinnar. Slík beiðni getur byggt á því að vörumerki hafi ekki verið notað í 5 ár samfleytt eða það hafi verið skráð í andstöðu við ákvæði vörumerkjalaga.

  Uppfylli umsókn ekki skilyrðin er henni synjað að svo stöddu. Umsækjanda er þá sent bréf og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum innan tiltekins frests. Umsóknargjöld eru ekki endurgreidd sé merkinu hafnað.

  Nánari upplýsingar
 • Hverjir eru kostir þess að sækja um vörumerki?

  Það er ekki skylda að skrá vörumerki, en kostir sem fylgja skráningu eru þeir að:

  (a) hægt er að fá úr því skorið, áður en farið er út í kostnaðarsamt markaðsstarf, hvort merkið sé þess eðlis að hægt er að fá einkarétt á því.

  (b) notkun á merkinu þarf ekki að vera hafin til að fá einkarétt á því.

  (c) auðvelt er að sanna að merkið er skráð ef verja þarf það fyrir ágangi annarra.

  Meira um kosti vörumerkjaskráningar
 • Hvernig sæki ég um erlendis?

  Vörumerki sem skráð eru hjá Einkaleyfastofunni eru einungis vernduð á Íslandi.  Ef markaðssetning er fyrirhuguð erlendis, er mikilvægt að skrá vörumerkið einnig í öðrum löndum en á Íslandi.

  Hafi verið sótt um vörumerki hér á landi, er hægt innan 6 mánaða frá umsóknardegi að leggja inn umsókn sama efnis í öðru ríki og krefjast forgangsréttar frá upphaflegu umsókninni. 

  Til þess leggja inn umsókn um skráningu vörumerkis í öðrum löndum þarf að gera eitthvað af eftirfarandi:

  (a) Fara í alþjóðlegt umsóknarferli hjá WIPO (Alþjóðahugverkastofnuninni). Einkaleyfastofan hefur milligöngu við slíka umsókn. Alþjóðleg umsókn verður að byggja á umsókn sem síðar verður skráð, eða skráningu hér á landi og vöru- og þjónustulistinn má ekki vera víðtækari en fram kemur í íslensku  grunnumsókninni.

  (b) Íslendingar eiga einnig kost á því að vernda merki sín innan evrópska efnahagssvæðisins með því að leggja inn umsókn um svokölluð evrópuvörumerki (e. European Union Trade Mark - EUTM). hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO).  Hægt er að velja þessa leið með því að tilnefna Evrópusambandið í alþjóðlegri umsókn eða með milligöngu umboðsmanns sem staðsettur er innan Evrópusambandsins.                                            

  (c) Sækja um skráningu merkis í hverju landi fyrir sig.

   

  Umsóknir erlendis