Útlit og innihald umsóknar

Umsókn um vörumerki á Íslandi skal sækja um rafrænt á island.is eða skila útfylltu eyðublaði til Einkaleyfastofunnar.

Fyrir hvert vörumerki þarf að fylla út sérstaka umsókn.

Vinsamlegast athugið að umsóknargjöld eru ekki endurgreidd.

Leiðbeiningar með umsóknareyðublaði í númeraröð

1. Umsækjandi (730). Eigandi vörumerkis (einstaklingur/einstaklingar eða lögaðili), kennitala, heimilisfang og símanúmer og netfang.

2. Tengiliður. Á einungis við ef eigendur vörumerkis eru fleiri en einn eða ef eigandi er lögaðili.

3. Umboðsmaður (740). Ef umsækjandi er ekki búsettur hér á landi þarf hann að tilnefna umboðsmann sem búsettur er á Evrópska efnahagssvæðinu (Ísland er þar á meðal), í Sviss eða í Færeyjum. Ef umsækjandi er með skráð lögheimili á Íslandi er heimilt að tilnefna umboðsmann, en það er ekki skylda. Sé umboðsmaður tilnefndur verður að leggja inn undirritað umboð og verða umsækjandi og umboðsmaður báðir að undirrita umboðið. Þegar umboðsmaður er til staðar fara samskipti fram við umboðsmann, en ekki umsækjanda, að því leyti sem umboðið heimilar.

4. Forgangsréttur (300)Á einungis við hafi umsókn um vörumerki verið lögð inn áður í öðru ríki, en þá er hægt innan  6 mánaða frá umsóknardegi að leggja inn umsókn fyrir sama merki hér á landi og krefjast forgangsréttar frá upphaflegu umsókninni. Seinni umsókn telst þá lögð fram sama dag og sú fyrsta.

5. Vörumerkið (540/541). Einungis skal tiltaka eitt vörumerki á hverri umsókn (orð, orð- og mynd eða bara mynd). Ef sótt er um orð, skal það ritað í efri reitinn. Ef sótt er um orð- og mynd eða bara mynd (logo), skal það fært inn í neðri reitinn á umsóknareyðublaði sem fyllt er út á tölvutæku formi. Jafnframt skal skila inn mynd á stafrænu formi – .jpg (postur@els.is).

Ef vernda á merki í lit, skal skila inn litmynd (haka við reit).

Ef vernda á merki í þrívídd, skal skila inn mynd í þrívídd (haka við reit).

Félagamerki: með skráningu geta félög eða samtök öðlast einkarétt fyrir félagsmenn sína til að nota í atvinnustarfsemi sameiginlegt auðkenni fyrir vörur eða þjónustu. Jafnframt geta stjórnvöld, stofnanir, félög eða samtök öðlast einkarétt á merki sem notað er fyrir vörur eða þjónustu sem eftirlit eða staðlar taka til. Athugið að einstaklingar geta ekki sótt um félagamerki.

6. Upplýsingar um vöru og þjónustu (511). Yfir hvað skal verndin ná? Færa skal inn númer vöru- og þjónustuflokka, ásamt upptalningu á viðeigandi vöru/þjónustu. Valin skal sá flokkur sem varan/þjónustan fellur undir. Mikilvægt er að merkið sé skráð fyrir þær vörur og/eða þjónustu sem það á að notast fyrir. Flokkarnir eru samtals 45, 34 vöruflokkar og 11 fyrir þjónustu. Einn vöru- og/eða þjónustuflokkur er innifalinn í umsóknargjaldi en fyrir hvern flokk umfram einn þarf að greiða sérstaklega. Alla vöru- og þjónustuflokka má sjá á bls. 2 í umsókn og er yfirskrift flokka túlkuð á þá leið að hún taki eingöngu til þeirrar vöru eða þjónustu sem tilgreind er. Athygli skal vakin á því að hluti yfirskrifta flokka nr. 6, 7, 14, 16, 17, 18, 20, 37, 40 og 45 telst of víðtækur og þarf því að tilgreina nánar um hvers konar vöru eða þjónustu er að ræða, sbr. breytingum varðandi túlkun á yfirskrift Nice flokkunarkerfisins um vöru og þjónustu sem tóku gildi 1. janúar 2014. Nánari lýsingu á hverjum flokki fyrir sig og yfirlit má finna á heimasíðu ELS undir flokkun vöru og þjónustu. Skila verður vörulista á íslensku, en hægt er að leita í gagnabanka WIPO.

Ef vörulisti er mjög langur skal honum skilað á sér blaði.