Útlit og innihald umsóknar

Leiðbeiningar með umsókn um skráningu hönnunar

1. Umsækjandi (71). Umsækjandi hönnunarskráningar (einstaklingur/einstaklingar eða lögaðili/fyrirtæki).

2. Tengiliður. Á einungis við ef umsækjendur hönnunarskráningar eru fleiri en einn eða ef umsækjandi er lögaðili/fyrirtæki.

3. Hönnuður (72). Sé umsækjandi ekki hönnuðurinn skal tilgreina nafn hönnuðar hér og skila inn framsali hönnuðar, sbr. liður 9.

4Umboðsmaður (74). Á einungis við ef umsækjandi er ekki með skráð lögheimili á Íslandi. Sé umsækjandi með skráð lögheimili á Íslandi er þó heimilt að tilnefna umboðsmann sem annast mun skráninguna og skal þá skila inn umboði.

5. Hér er átt við skreytingu á vöru. Útlínur vörunnar sem ekki er óskað verndar á eru þá sýndar sem brotalínur til aðgreiningar.

6. Einungis skal haka við hér ef vernda á hönnunina í lit.

7. Tilgreina skal hönnun í stuttu máli, þ.e. hver hönnunin er, t.d., leiktæki, gjafapappír, skjámynd  eða grafískt tákn. Ef um fleiri en eina hönnun er að ræða (samskráning), þá skal tölusetja hverja hönnun um sig, t.d. 1. Bolli; 2. Undirskál; 3. Diskur o.s.frv. Athugið að tilgreining er ekki það sama og lýsing, sem er valkvæð.

8. Forgangsréttur (30). Á einungis við hafi áður verið sótt um skráningu hönnunar í öðru ríki og umsókn lögð inn hér á landi innan 6 mánaða frá umsóknardegi í hinu ríkinu, en þá skal litið svo á að seinni umsóknin hafi verið lögð inn samtímis hinni fyrri enda leggi umsækjandi fram kröfu þess efnis.

9. Fylgigögn o.fl. 

Myndir: Skila þarf inn 2 stk. af hverri mynd (ljósmynd eða teikningu án málsetninga) af hönnun þeirri er óskast skráð. Ef rafrænt eintak er lagt inn (jpg) er nægjanlegt að skila inn einni mynd á pappír enda séu myndirnar eins. Myndir skulu vera fyrsta flokks og bakgrunnur hlutlaus/auður. Rafræn gögn eru send á postur@els.is.

Framsal: Sé umsækjandi ekki hönnuðurinn skal haka við framsal hönnuðar og leggja slíkt skjal fram.

Lýsing: Sjái umsækjandi ástæðu til að lýsa hönnun með orðum skal slík lýsing fylgja á sérstöku blaði. Athuga að hvorki skal lýsa tæknilegri virkni né fullyrða um kosti eða gildi hönnunar.

Frestun skráningar: Umsækjandi getur óskað eftir því að skráningu (og birtingu) verði frestað í allt að 6 mánuði frá umsóknardegi.

Líkan: Skila þarf inn mynd(um) þó svo að líkan sé lagt inn. Líkan má að hámarki vera 40 kg og 40 cm3.

Flokkur: Hönnun er skipuð í flokka eftir Locarno-samningnum sem er  alþjóðlegt kerfi skráningaryfirvalda. Umsækjandi má tilgreina flokk en annars fyllt út af ELS. Athuga að samskráningar þurfa að tilheyra sama flokki.

Rannsókn: Hér skal merkja við ef óskað er rannsóknar á því hvort hér á landi hafi verið sótt um eins eða svipaða hönnun og umsóknin tekur til. Sjá gjaldskrá á heimasíðu ELS.

10. Verndartími. Skráð hönnun gildir í eitt eða fleiri fimm ára tímabil frá umsóknardegi, þar til 25 ára verndartíma er náð.