Útlit og innihald umsóknar

 • Útfyllt umsóknareyðublað. 

  Umsókn um einkaleyfi, by jonakh

 • Lýsing á uppfinningunni 
 • Einkaleyfiskröfur
 • Ágrip, þ.e. stutt samantekt á uppfinningunni
 • Teikningar ef við á
 • Umboð í frumriti ef umsækjandi er með umboðsaðila
 • Forgangsréttarskjöl ef umsókn sækir forgangsrétt til eldri umsóknar 

Hvernig á umsóknin að líta út?

 • Blaðsíður þurfa að vera tölusettar, ýmist efst á blaðsíðu eða neðst – án strika eða merkinga.  Á umsókn skulu ekki vera   neinar merkingar, t.d. í haus eða fót, þó er í lagi að tilvísunarnúmer umsækjanda eða umboðsmanns, að hámarki 12 stafir, sé efst á síðu í vinstra horninu.  
 • Á hverri blaðsíðu skulu vera línunúmer*, 2,5 cm frá vinstri brún síðu, þ.e. merkingar á fimmtu hverja línu. Þetta er til þess að auðvelda rannsakanda að vísa í texta í umsókninni.  Línunúmer* hefjast að nýju á hverri síðu. *Línunúmer sett í skjal í Word:  Valið er „Page layout“ , síðan „Page setup – Layout – Line numbers“  -  velja „Start on 1 - Count by  5“ og  „Restart each page“.
 • Hafa skal eitt og hálft (1,5) línubil milli lína og nota skal nægilega stórt og auðlæsilegt letur (t.d. Calibri, 11 pkt. eða Arial, 10. pkt.).  Spássíur og bil efst og neðst á síðu eiga að vera nægilega víðar til þess að texti tapist ekki við fjölföldun (3-4 cm).
 • Blaðsíður verða að vera hvítar af stærðinni A4, með svörtu letri.  Þetta er til þess að hægt sé að ljósrita síðurnar á þess að upplýsingar tapist.
 • Einungis á að vera texti öðru megin á blaðsíðu.
 • Ágrip umsóknarinnar á að innihalda stutt yfirlit (ekki lengra en 150 orð) yfir uppfinninguna.  Ágripið á að vera á sér blaði, þ.e. ekki í töluröð með öðrum blaðsíðum.  Merkja má það efst „Ágrip“.
 • Lýsing má hefjast á titlinum „Lýsing“.  Óæskilegt er að hafa sérstakar fyrirsagnir innan skjalsins.
 • Einkaleyfiskröfur eiga að hefjast á nýrri síðu, merkja má það efst „Kröfur“ eða sambærilegt.  Kröfurnar eiga að koma beint á eftir lýsingunni, í blaðsíðuröð með lýsingunni.
 • Teikningar eiga að hefjast á nýrri síðu og skulu vera skýrar og einungis í svart/hvítu. Merkja skal hverja teikningu fyrir sig ef þær eru margar á sama blaðinu, „Teikning 1, Teikning 2,..“.  Teikningar eiga að koma beint á eftir kröfum, í  töluröð með síðum krafna.  Ef texti er á teikningum ætti hann ekki vera minni en 0,32 cm.

Réttur frágangur á fyrstu stigum auðveldar til muna vinnu við umsóknina síðar, t.d. ef sótt er um í öðrum löndum eða farið útí alþjóðlegt umsóknarferli.  Umsóknir sem eru aðgengilegar almenningi, eru birtar á netinu í Espacenet-gagnabankanum sem er í eigu Evrópsku einkaleyfastofunnar og er því mikilvægt að umsókn sé snyrtileg og læsileg.