Uppfinning

Tæknileg nýjung sem unnt er að vernda með einkaleyfi.

 • Ég er með uppfinningu – get ég fengið einkaleyfi?

  Hægt er að fá einkaleyfi á tæknilegum uppfinningum ef þær eru nýjar og frumlegar og ef hægt er að fjölfalda þær. Áður en sótt er um einkaleyfi er rétt að kanna hvaða einkaleyfi eru til og hvort uppfinningin er ný, t.d. með því að leita í gagnabanka Evrópsku einkaleyfastofunnar Espacenet. Þá getur verið skynsamlegt að leita til fagmanna hjá t.d. Félagi einkaleyfasérfræðinga og Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa. Þá býður t.d. Nordic Patent Institute upp á forkönnun á uppfinningu.

  Nýnæmi og leit
 • Af hverju ætti ég að sækja um einkaleyfi?

  Einkaleyfi veitir þér einkarétt á að hagnýta uppfinninguna þína í ákveðinn tíma ýmist í eigin þágu eða með því að heimila öðrum nýtingu hennar (nytjaleyfi). Enn fremur getur þú komið í veg fyrir að aðrir framleiði sömu vöru. Einkaleyfi gefur þér forskot á samkeppnisaðilana auk þess sem það er eitt af því sem fjárfestar horfa til þegar þeir meta verðmæti hugmynda og fyrirtækja.

  Kostir einkaleyfis á tæknilegum uppfinningum
 • Má ég segja frá uppfinningunni?

  Eitt meginskilyrði þess að fá einkaleyfi á uppfinningu er að hún hafi verið óþekkt á umsóknardegi. Svokallað nýnæmi er metið á heimsvísu og þess vegna er mikilvægt að uppfinningamenn haldi uppfinningum leyndum þar til sótt er um. Það má þó teljast öruggt að ræða hugmyndir í smáatriðum við aðila sem starfa sinna vegna eru bundnir trúnaði varðandi öll samskipti sín við skjólstæðinga. Þar má t.d. nefna sérfræðinga á sviði einkaleyfa og starfsfólk einkaleyfastofa.

  Nýnæmi og leynd uppfinninga
 • Hvað kostar einkaleyfi?

  Umsóknargjald er greitt í upphafi og rannsókn umsóknar er innifalið í því gjaldi. Til að viðhalda umsókn/einkaleyfi þarf að greiða árgjöld, sem hækka eftir því sem líður á verndartímann. Við útgáfu þarf að greiða útgáfugjald. Einkaleyfastofan bendir á að hjá Rannís er hægt að sækja um styrk til undirbúnings umsókn um einkaleyfi.

   

  Meira um gjöld einkaleyfa
 • Hvað gerist eftir að ég hef lagt inn umsókn?

  Eftir að umsókn hefur verið yfirfarin með tilliti til formsatriða er hún rannsökuð með tilliti til nýnæmis og einkaleyfishæfis. Í flestum tilfellum þarf umsækjandi að gera breytingar á umsókn í kjölfar rannsóknar og er hún þá rannsökuð á ný. Þegar rannsóknum er lokið metur Einkaleyfastofan umsókn ýmist hæfa til útgáfu eða hafnar umsókninni. Sé umsókn hæf til útgáfu greiðir umsækjandi útgáfugjald og tilkynning um útgáfu einkaleyfisins er birt í ELS-tíðindum. Innan 9 mánaða frá útgáfudegi getur hver sem er andmælt útgáfunni. Sé umsókn hins vegar ekki hæf til útgáfu einkaleyfis er henni hafnað. Einkaleyfið getur að hámarki lifað í 20 ár frá umsóknardegi.

  Ferli umsóknar
 • Hvernig sæki ég um erlendis?

  Einkaleyfi sem Einkaleyfastofan veitir gildir einungis á Íslandi. 

  Nýnæmi er metið á heimsvísu í öllum ríkjum, þess vegna er afar mikilvægt að sækja um erlendis ef byggja á umsókn á íslenskri umsókn, innan 12 mánaða frá fyrstu umsókn (forgangsréttur).

  Til að fá einkaleyfi í öðrum löndum þarf að gera eitthvað af eftirfarandi:

  (a) Fara í alþjóðlegt umsóknarferli (PCT) hjá Alþjóðahugverkastofnuninni, WIPO. Einkaleyfastofan hefur milligöngu við slíka umsókn. Ef aðeins er ætlunin að sækja um vernd í 1-3 löndum getur borgað sig að óska eftir vernd í hverju landi fyrir sig.

  (b) Sækja um einkaleyfi hjá Evrópsku einkaleyfastofunni, EPO. Einkaleyfastofan getur haft milligöngu um slíka umsókn.

  (c) Sækja um einkaleyfi í hverju landi fyrir sig.

  Umsóknir erlendis