Umsóknarferli og skráning

Ferli vörumerkjaumsókna

Ef skráningu er synjað sendir Einkaleyfastofan umsækjanda tilkynningu um það bréflega og honum er gefinn frestur til að gera athugasemdir við niðurstöðuna.

Ef engir formgallar eru á umsókninni og Einkaleyfastofan gerir engar athugasemdir við skráningarhæfi merkisins, má gera ráð fyrir að skráningarferlið taki 4-8 vikur.

Þegar merkið hefur verið skráð er það birt á heimasíðu Einkaleyfastofunnar í ELS-tíðindum. Blaðið kemur út 15. hvers mánaðar.  

Skráningarskírteini 

Mikilvægt er að halda skráningarskírteini vel til haga þar sem það staðfestir eignarétt yfir skráðu vörumerki. Ávallt er þó unnt að nálgast upplýsingar um skráð merki vörumerkjaskrá.    

Andmælaréttur

Í tvo mánuði frá birtingardegi skrásetts vörumerki getur hver sem er andmælt skráningunni. Andmælin skulu send Einkaleyfastofunni bréflega og rökstudd.

Ef vörumerki er andmælt er eigandanum gefinn kostur á að koma fram með rök fyrir skráningunni. Þegar báðir aðilar hafa tjáð sig um málið tekur Einkaleyfastofan málið til úrskurðar. Málsaðilar geta svo borið ákvörðun Einkaleyfastofunnar undir Áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar og/eða höfðað mál fyrir dómstólum.                                                                                                                                                                                 

Notkun vöru- eða félagamerkis 

Hér á landi er ekki skylt að sýna skráningaryfirvöldum fram á notkun merkisins. Hafa verður þó í huga að samkvæmt 25. gr. laga nr. vörumerkjalaga um vörumerki getur sá sem telur sig eiga hagsmuna að gæta farið fram á ógildingu merkis fyrir dómi eða hjá Einkaleyfastofunni ef:
  • merki hefur ekki verið notað að fimm árum liðnum frá skráningardegi, eða
  • ef eigandi merkis hefur ekki notað það í fimm ár samfleytt.

Gildistími skráningar

Komi andmæli ekki fram eða leiði þau ekki til niðurfellingar á skráningu gildir skráning merkisins á Íslandi í 10 ár í senn frá skráningardegi samkvæmt 26. gr. vörumerkjalaga. Að 10 árum liðnum þarf beiðni um endurnýjun merkisins að berast Einkaleyfastofunni eigi merkið að gilda til lengri tíma. Unnt er að óska eftir endurnýjun merkis í eitt ár, þ.e. í sex mánuði fyrir og í sex mánuði eftir að skráningartímabili lýkur, samkvæmt 27. gr. laganna. 

Eigendaskipti/breytt heimilisfang eiganda

Mikilvægt er að vörumerkjaskrá sýni réttar upplýsingar um eiganda vörumerkis. Skipti vörumerkið um eiganda er nauðsynlegt að leggja fram gögn því til staðfestingar til Einkaleyfastofunnar, s.s. framsal, gögn um samruna eða önnur gögn. Breyti eigandi um heimilisfang er nauðsynlegt að senda tilkynningu þar um til stofnunarinnar