Um okkur

Einkaleyfastofan er ríkisstofnun undir yfirstjórn atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Stofnunin tók til starfa 1. júlí 1991 og tók þá við hlutverki einkaleyfa- og vörumerkjadeildar iðnaðarráðuneytisins. Skipulag og starfssvið stofnunarinnar markast af auglýsingu nr. 187/1991 og reglugerð nr. 188/1991. Hlutverk stofnunarinnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Stofnuninni ber að veita einstaklingum, stofnunum og atvinnufyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði. Þá ber stofnuninni að stuðla að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi.

Í tímariti sem Einkaleyfastofan gefur út einu sinni í mánuði (ELS-tíðindi) eru birtar auglýsingar og tilkynningar er varða umsóknir og skráningar á sviði einkaleyfa, vörumerkja, byggðarmerkja og hönnunar. ELS-tíðindi eru birt rafrænt á heimasíðunni 15. hvers mánaðar en útprentun fæst gegn greiðslu. 

Frá árinu 2006 hefur faggildingarsvið ISAC starfað innan Einkaleyfastofunnar. ISAC er skammstöfun á ensku heiti sviðsins, "Icelandic Board for Technical Accrediation". Faggildingarsvið er sjálfstætt starfandi svið innan Einkaleyfastofunnar og markast starfsemi þess af lögum um faggildingu o.fl. nr. 24/2006.

Skrifstofan er opin alla virka daga frá kl. 10:00 - 15:00