Stjórnsýsluleg niðurfelling

Í  30. gr. a., sbr. 28. gr. vörumerkjalaga er að finna úrræði sem fjallar um afnám skráningar, í daglegu tali nefnt stjórnsýsluleg niðurfelling. Samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum getur hver sá sem telur sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta krafist þess að Einkaleyfastofan felli úr gildi skráningu eftir að andmælafrestur er liðinn. Slík krafa er ekki bundin neinum tímatakmörkunum og hægt að leggja inn hvenær sem er að því frátöldu að ef krafan er byggð á 25. gr. vörumerkjalaga er ekki hægt að leggja hana fram fyrr en að liðnum fimm árum frá skráningardegi.

Kröfu um stjórnsýslulega niðurfellingu skal skila inn til Einkaleyfastofunnar skriflega og í tvíriti, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 310/1997 um skráningu vörumerkja o.fl. Kröfunni skal jafnframt fylgja tilskilið gjald sem ekki er endurgreitt.

Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í kröfunni:

Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í kröfunni:

  1. Nafn þess sem krefst niðurfellingar skráningar og heimilisfang, ásamt nafni umboðsmanns hafi hann verið tilnefndur
  2. Númer þeirrar skráningar sem krafist er að verði felld niður
  3. Helstu rök fyrir kröfu um niðurfellingu skráningar
  4. Nauðsynleg skjöl til stuðnings kröfunni

Ef rökstuðningur er að mati Einkaleyfastofunnar ábótavant er veittur tveggja mánaða frestur til að bæta úr því. Ef rökstuðningur berst ekki er krafan ekki tekin til efnislegrar meðhöndlunar. Jafnframt skal vera augljóst hvort krafan er sett fram vegna notkunarleysis hins skráða merkis, skv. 25. gr. vörumerkjalaga eða af öðrum ástæðum. Einkaleyfastofan tilkynnir eiganda skráningarinnar um framkomna kröfu og er honum gefinn kostur á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Komi fram athugasemdir frá eiganda skráningarinnar getur Einkaleyfastofan veitt aðilum frest til að leggja fram frekari greinargerðir, sé þess talin þörf. Einkaleyfastofan tekur ákvörðun í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna og er ákvörðunin birt í ELS-tíðindum. Frekari upplýsingar um stjórnsýslulega niðurfellingu má nálgast hjá starfsmönnum vörumerkjasviðs Einkaleyfastofunnar eða með fyrirspurn á netfangið postur@els.is.