Samtalsleit

Samtalsleit er ný þjónusta sem Einkaleyfastofan býður í samstarfi við Nordic Patent Institute (NPI). Leitin er hugsuð fyrir aðila sem vilja kanna stöðu tæknilegra uppfinninga m.t.t. þeirrar tækni sem þegar er þekkt. Hún getur t.d. gagnast vel þeim sem eru á fyrstu stigum í rannsóknar- og þróunarferli til að ákveða hvaða stefnu er rétt að taka varðandi mögulega einkaleyfisvernd.

Þjónustan felur í sér tveggja tíma fjarfund með rannsakanda frá NPI. Á fundinum er farið í gegnum hugmyndina og leitað að þegar þekktri tækni í öflugum einkaleyfagagnagrunnum. Slíkir gagnagrunnar innihalda upplýsingar um mikinn fjölda einkaleyfa og umsókna um einkaleyfi, en talið er að í þeim sé hægt að finna 80-90% af allri tækniþekkingu í heiminum.

Samtalsleit getur þannig gefið hugmynd um nýnæmi uppfinningar en einnig  upplýsingar um hvaða fyrirtæki og aðilar eru starfandi á tilteknu tæknisviði. Slíkar upplýsingar geta t.d. nýst aðilum sem eru að leita að samstarfi eða mögulega fjárfestingum á síðari stigum í rannsóknar- og þróunarferlinu.

Til þess að tryggja að rannsakandinn hafi þekkingu og reynslu á tæknisviði uppfinningarinnar þarf að fylla út eyðublað og lýsa uppfinningunni í grófum dráttum. Eyðublaðið er síðan sent til NPI sem finnur besta rannsakandann fyrir leitina. 

  • Samtalsleit gefur mynd af stöðu uppfinningar m.t.t. þegar þekktrar tækni.
  • Niðurstöður leitarinnar eru ekki staðfesting á nýnæmi uppfinningar.
  • Allt efni fundarins er trúnaðarmál.
  • Hver leit kostar 27.600 kr.

 

Hægt er að óska eftir samtalsleit með því að senda tölvupóst á postur@els.is.