Nýnæmi og leynd uppfinninga

Frumskilyrði fyrir því að hægt sé að fá  einkaleyfi fyrir uppfinningu er að hún sé ný, frumleg og hæf til framleiðslu. Það að umsókn þurfi að vera ný tekur ekki aðeins til Íslands, heldur þarf hún að vera ný á heimsvísu. Hún þarf jafnframt að vera nægjanlega frábrugðin því sem þegar er þekkt.
Nauðsynlegt er að kanna áður en haldið er af stað með umsókn hver staða uppfinningarinnar er. Hægt er að framkvæma einfalda leit í einkaleyfaskrá Einkaleyfastofunnar, sem innheldur upplýsingar um einkaleyfisumsóknir og skráð einkaleyfi á Íslandi, eða ítarlegri einkaleyfaskrá á vefsíðunni Espacenet, gagnabanka Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO).

Mikilvægt er að halda uppfinningu sinni leyndri þangað til búið er að leggja inn einkaleyfisumsókn. Fram að þeim tíma hefur uppfinningamaðurinn ekkert í höndunum sem bannar öðrum að notfæra sér uppfinninguna.

Hafa skal í huga að ekki má vera búið að kynna uppfinninguna, s.s. með vísindagrein, í fyrirlestri, sjónvarpsviðtali eða með framleiðslu og markaðssetningu áður en sótt er um einkaleyfi, hvorki hér á landi né erlendis.

Eftir að búið er að leggja inn umsókn er hins vegar óhætt að hefjast handa, enda telst uppfinningin vernduð frá umsóknardegi.

Nýnæmi uppfinningar og leit

Nauðsynlegt er að kanna áður en haldið er af stað með umsókn hver staða uppfinningarinnar er. Hægt er að framkvæma einfalda leit í einkaleyfaskrá Einkaleyfastofunnar, sem innheldur upplýsingar um einkaleyfisumsóknir og skráð einkaleyfi á Íslandi, eða ítarlegri einkaleyfaskrá á vefsíðunni Espacenet, gagnabanka Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO). Þar er hægt að fletta upp eftir leitarorðum (á ensku) og skoða um 80 milljónir einkaleyfaskjöl frá öllum helstu iðnríkjum heims, sem innihalda upplýsingar um uppfinningar og tækniþróun frá árinu 1836. Með þeim hætti er hægt að fá vísbendingar um hvort uppfinningin er ný eða hið gagnstæða, þ.e. hvort uppfinningin hafi verið fundin upp áður.

Allar uppfinningar sem rata í einkaleyfisumsóknir, eru flokkaðar samkvæmt alþjóðlegu flokkunarkerfi (enska: "International Patent Classification", IPC), sjá vefsíðu IPC hjá Alþjóðahugverkastofnunni. Þannig fá allar uppfinningar ákveðið flokkunartákn sem vísar í tæknisvið uppfinningarinnar. Flestar uppfinningar fá fleiri en eitt flokkunartákn. Með þessum hætti er auðveldara að leita að ákveðnum uppfinningum í gagnabönkum um einkaleyfi t.d. espacenet-grunninum.

Til þess að gera eins fullkomna könnun á því og unnt er á því hvort uppfinningin sé ný, er best að leita til fagmanna eins og einkaleyfasérfræðinga eða umboðsmanna fyrir einkaleyfi á Íslandi en nöfn þeirra má finna hjá Félagi einkaleyfasérfræðinga, FEIS og Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, FUVE.  Þessir aðilar geta aðstoðað við að skrifa einkaleyfisumsókn auk þess sem að þeir geta tekið að sér að sjá um allan málarekstur í kringum umsóknina.

Einkaleyfastofur víða í heiminum bjóða upp á að gerð sé forkönnun á uppfinningu gegn gjaldi.  Umboðsmenn um einkaleyfi geta haft milligöngu um slíkt. Nordic Patent Institute, NPI er annar valkostur en Einkaleyfastofan er aðili að þeirri stofnun. Stærri fyrirtæki eru oftast með umboðsmann til þess að sjá um umsóknina fyrir sig en einstaklingur búsettur á Íslandi getur valið að reka sín mál sjálfur.

Evrópska einkaleyfastofan veitir ókeypis aðgang að IPscore sem er tól til þess að meta virði einkaleyfis eða einkaleyfisumsóknar.  Svara þarf ýmsum spurningum varðandi fjárhag og fjármögnun, stöðu tækninnar á markaði, lagalega stöðu einkaleyfisins og stefnu fyrirtækisins í hugverkamálum.  Sé öllum spurningum svarað eftir bestu vitund, má fá fram skýrslur með myndrænni framsetningu á stöðu einkaleyfisins útfrá þeim forsendum sem gefnar voru.  Einnig er hægt að bera saman stöðu nokkurra einkaleyfa.

Í sumum tilfellum ætti uppfinningamaður einnig að skoða vörumerkjavernd eða hönnunarvernd sem eru einnig verðmæt hugverkaréttindi, og það gæti borgað sig að vernda uppfinninguna á öllum þessum sviðum.

Sjá nánari upplýsingar í leit í gagnabönkum og handbók uppfinningamannsins hér á heimasíðunni.