Nordic Patent Institute

Nordic Patent Institute, NPI

Íslenskir umsækjendur PCT-umsókna (alþjóðlegra umsókna) geta valið Nordic Patent Institute sem rannsóknastofnun fyrir umsókn sína. NPI hefur yfir að ráða meira en 150 vel menntuðum og reyndum rannsakendum staðsettum hjá dönsku og norsku einkaleyfastofunum. Kóðinn sem notaður er til að auðkenna Nordic Patent Institute í PCT-umsókn er XN.

Nordic Patent Institute er alþjóðleg stofnun sem Ísland, Danmörk og Noregur eru aðilar að. Stofnunin var sett á stofn með það að markmiði að halda tækniþekkingu innan Norðurlandanna og bjóða uppá hraða og góða þjónustu við rannsóknir á einkaleyfum, á samkeppnishæfu verði.

Stofnunin var samþykkt á þingi Alþjóðahugverkastofnunarinnar 2006, sem alþjóðleg rannsóknastofnun sem annast alþjóðlega nýnæmis- og einkaleyfishæfisrannsókn fyrir Íslendinga, Dani og Norðmenn. Stofnunin tók til starfa 1. janúar 2008.

Nordic Patent Institute annast einnig rannsóknir á einkaleyfum fyrir fyrirtæki og stofnanir.

Heimasíða Nordic Patent Institute.

Alþjóðleg nýnæmisrannsókn

Markmið með alþjóðlegri nýnæmisrannsókn er að rannsaka hvort að uppfinning sem alþjóðleg umsókn byggir á sé ný og frábrugðin því sem telst þekkt fyrir umsóknardag.

Með hliðsjón af þeirri rannsókn gefur NPI út alþjóðlega leitarskýrslu (ISR) almennt innan 15 mánaða frá forgangsréttardegi (7 mánaða ef ekki er krafist forgangsréttar) eða tveggja mánaða frá móttöku leitareintaks og er þá miðað við síðara tímamark. Á sama tími er gefin út skrifleg álitsgerð „written opinion“ þar sem fram kemur hvort að uppfinningin sé talin ný, frumleg og hagnýtanleg í atvinnulífinu auk þess er kannað hvort að umsóknin sé að öðru leyti í samræmi við sáttmálann.

Alþjóðleg forathugun á einkaleyfishæfi

Umsækjandi getur óskað eftir því að NPI gerir alþjóðlega forathugun á einkaleyfishæfi með því að leggja inn beiðni þess efnis.  Markmið með alþjóðlegri forathugun er ekki að samþykkja eða hafna veitingu einkaleyfis, heldur að fá álit á því hvort að uppfinning virðist vera ný, feli í sér frumleika og sé hagnýtanleg í atvinnulífinu. Jafnframt er kannaður skýrleiki krafna, lýsing og teikningar og hvort að kröfurnar eigi sér stoð í lýsingu.

NPI gefur út alþjóðlega forathugunarskýrslu um einkaleyfishæfi (IPRP) með niðurstöðum rannsóknar almennt innan 27 mánaða frá forgangsréttardegi. Skýrslan gefur umsækjanda góðan grunn til að meta hvort að líkur séu á að einkaleyfi verði veitt af tilnefndum aðildarríkjum.

Sú leit sem er hvað algengust er nýnæmisrannsókn á uppfinningum.  Markmið með nýnæmisrannsókn getur verið að fá svar við því hvort uppfinning sé ný, meta virði nýrrar vöru m.t.t. einkaleyfisverndar eða kanna hvort að grundvöllur sé fyrir innlögn einkaleyfisumsóknar.  

Jafnframt er hægt að óska eftir að NPI framkvæmi

  • Leit til stuðnings beiðni um hraðvirkari rannsókn í Bandaríkjunum
  • Greiningu á frelsi til starfa (e. Freedom to operate)
  • Greiningu á gildi einkaleyfis í eigu þriðja aðila
  • Greiningu á gildi eigin einkaleyfis
  • Greiningu á virði einkaleyfis fyrir sölu eða gerð nytjaleyfissamnings
  • Greiningu á tæknisviði og stefnumótandi yfirsýn
  • Greiningu á nýrri tækni og samkeppnisaðilum
  • Greiningu fyrir innlögn andmæla

Framangreindar leitir/greiningar eru unnar samkvæmt tilboði þar sem fram kemur tími og kostnaður við verkið. Tilboð er sent viðskiptavini innan 48 stunda. 

Niðurstöður berast milli tveggja og þriggja vikna hvað varðar greiningu á nýnæmi og gildi einkaleyfis sem og önnur stök verkefni en innan fjögra vikna hvað varðar greiningu á tæknisviði.

Rannsakandi er í samskiptum við viðskiptavin á meðan vinnu stendur.  Jafnframt hefur rannsakandi samband eftir afhendingu á lokaskýrslu til að tryggja að komið hafi verið til móts við þarfir viðskiptavinarins.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu NPI http://www.npi.int/ en einnig er hægt að hafa samband við Grétar Inga Grétarsson, aðstoðarforstjóra NPI, í síma +45 43 50 85 00 eða með tölvupósti á netfangið Gretar.Ingi.Gretarsson@npi.int