Myndir með umsókn

Nauðsynlegt er að skýrar myndir fylgi umsókn og að ekkert annað sé á myndunum nema það sem óskað er verndar á. Myndirnar skulu sýna hönnunina greinilega í heild og frá mismunandi sjónarhornum.  Verndin ræðst af því sem sést á myndunum. Bæði teikningar og ljósmyndir koma til greina. Sérstakt gjald er tekið fyrir hverja mynd af hönnun umfram eina. 

Atriði sem er því gott að hafa í huga:

  • Vandaðar myndir koma í veg fyrir hugsanlegar tafir á meðhöndlun umsóknarinnar.
  • Hver mynd má aðeins sýna vöruna frá einu sjónarhorni.  Myndirnar þurfa að henta fyrir prentun í svart/hvítu og eru ljósrit af ljósmyndum í flestum tilfellum ónothæf. Góð ljósrit af teikningum eru hins vegar tekin gild.
  • Þegar sótt er um vernd á skreytingu þarf myndin að sýna skreytinguna á viðkomandi vöru.
  • Ef sótt er um skráningu á fleiri en einni hönnun (vöru) í sömu umsókn (samskráning) þarf að auðkenna, með númerum, hvaða myndir tilheyra hverri hönnun.
  • Ef lagt er inn líkan af vöru þarf líka að skila inn mynd(um).
  • Heildarútlit vörunnar og öll helstu sérkenni hennar þurfa að koma vel fram. Ef hönnun vörunnar kemur ekki greinilega fram á einni mynd (t.d. í þrívídd) verður að skila inn fleiri myndum sem sýna vöruna frá mismunandi sjónarhornum.
  • Þótt það kosti meira að birta fleiri en eina mynd ber að hafa í huga hugsanlegt réttindatap ef ekki koma fram á mynd(um) öll helstu sérkenni vörunnar.
  • Á mynd má aðeins koma fram varan sem verndin á að ná til og engir aukahlutir. Ef vernda á t.d. hönnun á bókahillu má myndin ekki sýna hilluna með bókum eða smádóti. Hillan verður að vera alveg sjálfstæð og bakgrunnurinn hlutlaus.
  • Myndirnar eiga að sýna endanlegt útlit vörunnar. Þannig eru vinnuteikningar (með málsetningum) ekki teknar gildar. Látið bestu myndirnar fylgja umsókn. Vernd á hönnuninni ræðst af því sem sést á mynd (eða líkani) sem fylgir umsókn. Ef einhver hönnunareinkenni, t.d. á bakhlið hlutar, eru sérstæð njóta slík auðkenni því aðeins verndar að þau komi fram á mynd. Of seint er að skila inn betri mynd eftir að hönnun hefur verið skráð og mynd af henni verið birt í ELS-tíðindum.