Meðhöndlun umsóknar

Einkaleyfastofan skoðar hvort öllum skilyrðum sé fullnægt, þ.e. hvort:

  • Umsóknargjald sé greitt
  • Umsóknin innihaldi öll nauðsynleg gögn
  • Form umsóknar sé í lagi
  • Efnislegt innihald umsóknar sé þannig úr garði gert að efnisleg rannsókn geti farið fram

Einkaleyfastofan sendir út bréf til umsækjanda þar sem skýrt er út hvaða úrbætur þarf að gera á umsókn og gefur frest til þess að lagfæra hana.  Mikilvægt er að svara bréfum ELS innan gefins frests, annars verður umsóknin afskrifuð (sjá 15. gr. einkaleyfalaga).

Rannsóknarferlið

Þegar búið er að bæta úr umsókn ef á henni voru ágallar, fer umsókn í efnislega rannsókn.  Í rannsókninni er eftirfarandi skoðað af sérfræðingi á viðkomandi tæknisviði:

  • Hvor uppfinningin sé hagnýtanleg í atvinnulífi, þ.e. hvort hana sé hægt að fjölfalda, framleiða og selja.
  • Hvort uppfinning sé ný í samanburði við aðrar uppfinningar í sama tækniflokki.
  • Ef uppfinningin er ný, er skoðað hvort hún sé frumleg, þ.e. hvort uppfinningin sé nægilega frábrugðin því sem er þekkt í dag, til þess að geta talist ný uppfinning.

Rannsakandinn tekur saman skýrslu sem Einkaleyfastofan framsendir til umsækjanda.  Umsækjandi fær í fyrstu 8 mánaða frest til þess að skila inn athugasemdum við rannsóknina og t.d. koma með mótrök gegn þeim.  Oft ganga bréfaskriftir milli rannsakanda og umsækjanda nokkrum sinnum þar til niðurstaða er fengin.  Umsækjandi fær ávallt frest til þess að bregðast við athugasemdum.

Niðurstaðan er ýmist sú að umsókn sé hæf til útgáfu, oft eftir að á henni hafa verið gerðar lagfæringar eða þá það, að umsókn sé ekki hæf til útgáfu.  Henni er þá hafnað (sjá 16. gr. einkaleyfalaga).

Hvað get ég gert ef umsóknin er afskrifuð?

Ef umsækjanda verður á í messunni og gleymir að svara bréfum frá ELS eða greiða tilskilin gjöld, verður umsókn afskrifuð  (sjá 15. gr. einkaleyfalaga).  Þá eru þrátt fyrir það ýmis úrræði í boði ef umsækjandi vill halda umsókn til streitu:

Ef umsækjandi missir af öllum tímafrestum tengdum þessum úrræðum, er umsókn endanlega afskrifuð og þá er ekki hægt að vekja hana til lífsins aftur.  Séu 18 mánuðir liðnir frá því umsókn var lögð inn, er uppfinningin orðin opinber og telst þá til þekktrar tækni.  Eftir það getur umsókn hamlað því að uppfinningamaðurinn fái einkaleyfi á sömu eða svipaðri uppfinningu þar sem uppfinningin teldist þá ekki ný.  Vegna þessa er mjög mikilvægt að svara öllum bréfum ELS innan tímamarka og greiða þau gjöld sem álögð eru.