Hönnun erlendis

Hönnun sem skráð eru hjá Einkaleyfastofunni er einungis vernduð á Íslandi. Ef markaðssetja á vöru erlendis með sérstæðri hönnun kemur sér vel að hafa hönnun skráða hér á landi. 

Hægt er að nýta sér reglur um forgangsrétt, en í því felst að hægt er að leggja inn umsókn í öðrum ríkjum innan 6 mánaða frá umsóknardegi hér á landi. Seinni umsókn telst þá lögð inn sama dag og sú fyrsta.

Til þess leggja inn umsókn um skráningu hönnunar í öðrum löndum þarf að gera eitthvað af eftirfarandi:

  • Sækja um alþjóðlega skráningu hönnunar hjá WIPO (Alþjóðahugverkastofnuninni). Í einni umsókn um alþjóðlega skráningu þarf að tilgreina í hvaða ríkjum er óskað skráningar og er m.a. hægt að tilnefna lönd Evrópusambandsins í einu lagi. Einkaleyfastofan getur haft milligöngu um slíka umsókn.
  • Íslendingar eiga einnig kost á því að vernda hönnun sína innan Evrópusambandsins með því að leggja inn umsókn. Umsókn um svokallaða Evrópuhönnun (e. Registered Community Design-RCD) hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO). Unnt er að fá skráða hönnun í Evrópusambandinu í heild í stað þess að leggja inn sjálfstæðar umsóknir í hverju aðildarríki þess fyrir sig. 
  • Sækja um hönnun í hverju landi fyrir sig. Ef aðeins er ætlunin að sækja um vernd í 1-3 löndum getur borgað sig að óska eftir vernd í hverju landi fyrir sig.