Hönnun á Íslandi

Umsókn um hönnun á Íslandi skal skila til Einkaleyfastofunnar.

Umsóknareyðublað fyrir hönnunarumsókn á Íslandi og gjaldskrá.

Umsóknargjöld eru ekki endurgreidd.

Umsóknargjald ber að greiða þegar umsókn er lögð inn, en umsókn telst ekki móttekin fyrr en greiðsla hefur borist. 

Umsækjendur sem ekki eru búsettir hérlendis þurfa að hafa umboðsmann sem búsettur er á EES-svæðinu.

Ef umsækjandi er ekki hönnuður þarf að fylgja framsal frá hönnuði til umsækjanda.

Öruggast er að leggja inn umsókn strax og hönnunin er fullmótuð og áður en farið er að leita að fjárfestum eða hugsanlegum samstarfsaðilum vegna framleiðslu. Þó er hægt að leggja inn umsókn allt að 12 mánuðum eftir að hönnun var gerð aðgengileg án þess að skerða nýnæmi hennar (griðtími).

Hvaða vernd veitir hönnunarskráning?

Skráning hönnunar veitir eiganda skráningarinnar einkarétt til að hagnýta hana og rétt til að banna öðrum að hagnýta sér viðkomandi hönnun. Því frumlegri og nýstárlegri sem hönnunin er þeim mun sterkari er verndin.

Hve lengi gildir hönnunarskráning?

Skráð hönnun gildir í eitt eða fleiri fimm ára tímabil talið frá umsóknardegi. Skráninguna má síðan endurnýja til fimm ára í senn þar til 25 ára verndartíma er náð.

Forgangsréttur

Ekki er gert að skilyrði að sótt hafi verið um skráningu hönnunar hér á landi, til þess að hægt sé að sækja um skráningu alþjóðlegrar hönnunar. Ef hins vegar umsækjandi hefur skráð hönnun hér á landi og hyggst leggja inn alþjóðlega umsókn á grundvelli þeirrar íslensku skal það gert innan 6 mánaða frá umsóknardegi. Þá getur umsækjandi notfært sér forgangsrétt og telst þá alþjóðlega umsóknin  fram komin samtímis hönnuninni hér á landi.