Hlutun

Hægt er að hluta sundur vörumerkjaumsókn eða vörumerkjaskráningu í tvær eða fleiri ef umsókn eða skráning inniheldur fleiri en einn vöru- og/eða þjónustuflokk.
Ein umsókn um vörumerki eða ein vörumerkjaskráning verður þá að tveimur eða fleirum, en nýja umsóknin eða skráningin inniheldur þó aldrei sama/sömu vöru- og/eða þjónustuflokk/flokka og sú fyrri.

Til að umsókn um hlutun sé tekin til greina verður að vera skýrt hvaða vöru- og/eða þjónustuflokka hlutunin tekur til.

Hlutun umsóknar um vörumerki

Beiðni um hlutun umsóknar skal innihalda:

  1. númer þeirrar umsóknar sem á að hluta,
  2. lista yfir þær vörur og/eða þjónustu sem hver umsókn á að innihalda eftir hlutun.

Umsókn, sem verður til við hlutun, má ekki vera víðtækari en upprunalega umsóknin. Þá má nýja umsóknin ekki taka til sömu vöru eða þjónustu og hin upprunalega umsókn.

Ekki er heimilt að verða við beiðni um hlutun ef óljóst er hvort hlutunin rúmist innan hinnar upprunalegu umsóknar.

Þegar beiðni um hlutun umsóknar hefur verið afgreidd fær nýja umsóknin nýtt sjálfstætt umsóknar­númer en heldur sömu umsóknardagsetningu og forgangsréttardagsetningu og upprunalega umsóknin sé slíku til að dreifa.

Umboð, framsalsgögn og önnur skjöl tengd upprunalegu umsókninni gilda einnig sem skjöl fyrir hina nýju umsókn sem verður til við hlutun.

Breytingin er birt í ELS-tíðindum.

 

Hlutun vörumerkjaskráningar

Beiðni um hlutun skráningar skal innihalda:

  1. númer þeirrar skráningar sem á að hluta,
  2. lista yfir þær vörur og/eða þjónustu sem hver skráning á að innihalda eftir hlutun.

Skráning, sem verður til við hlutun, má ekki vera víðtækari en hin upprunalega skráning. Þá má nýja skráningin ekki taka til sömu vöru eða þjónustu og hin upprunalega skráning.

Ekki er heimilt að verða við beiðni um hlutun ef óljóst er hvort hlutunin rúmist innan hinnar upprunalegu skráningar.

Þegar beiðni um hlutun vörumerkjaskráningar hefur verið afgreidd fær nýja skráningin nýtt sjálfstætt skrán­ingar­númer en heldur sömu skráningardagsetningu og forgangsréttardagsetningu og hin upprunalega skráning sé slíku til að dreifa.

Umboð, framsalsgögn og önnur skjöl tengd upprunalegu skráningunni gilda einnig sem skjöl fyrir hina nýju skráningu sem verður til við hlutun.

Breytingin er birt í ELS-tíðindum.