Helstu skilyrði verndar

Til þess að hönnun njóti verndar samkvæmt lögum um hönnun þarf hún að uppfylla það skilyrði að vera ný og sérstæð.

Hönnun telst ef hún hefur ekki verið gerð aðgengileg almenningi fyrir umsóknardag eða forgangsréttardag. Við mat á því hvort hönnun telst ný er miðað við það hvort eins hönnun hafi verið gerð aðgengileg, en ekki hvort að svipuð hönnun fyrirfinnist.

Svonefndur „griðtími" er undantekning frá fyrrgreindu skilyrði um að hönnun hafi ekki verið gerð aðgengileg fyrir umsóknardag.

Hönnun telst sérstæð ef hún er ótvírætt frábrugðin heildarmynd annarrar hönnunar, þ.e. hönnunar sem þegar er þekkt. Það er því gerð krafa um að einhvers konar sköpun hafi átt sér stað. Meta á sérstæði hönnunar út frá sjónarhorni upplýsts notanda. Við matið ber einnig að taka tillit til þess svigrúms sem hönnuður hafði við hönnunina. Eftir því sem möguleikarnir til nýrrar hönnunar eru minni, því minni kröfur eru gerðar um sérstæði. Svigrúm til hönnunar á hjólbörðum er t.d. mun minna en þegar um leikföng er að ræða.

Til viðbótar við framangreint má hönnun má ekki fela í sér:

  • Fána eða skjaldarmerki sem ekki njóta verndar.
  • Vörumerki eða heiti á atvinnustarfsemi annars aðila.
  • Verk sem nýtur verndar höfundalaga.

Einkaleyfastofan kannar hvort formskilyrði varðandi umsókn séu uppfyllt áður en hönnun er samþykkt til skráningar. Ennfremur er skoðað hvort umsókn uppfylli skilyrði 1. tl. 2. gr., þ.e. hvort um hönnun er að ræða, sem og samræmi við 1. og 2. tl. 7. gr., sem er t.d. hvort umsókn fari gegn siðgæði eða allsherjarreglu. Ekki fer fram sérstök könnun á því hvort hönnun telst vera ný og sérstæð. Hins vegar getur Einkaleyfastofan, gegn beiðni og sérstöku gjaldi, framkvæmt ítarlega rannsókn.

Þegar umsókn uppfyllir öll skilyrði er hönnunin skráð. Umsækjandi getur óskað eftir því skráningu (og birtingu) verði frestað í allt að 6 mánuði frá umsóknardegi. Beiðnin felur í sér að myndum af hönnuninni sé haldið leyndum.

Þeir aðilar sem hugsanlega telja sig eiga betri rétt til hönnunar geta hvenær sem er á verndartíma hennar krafist ógildingar á skráningunni.

Hægt er að leita í hönnunarskrá Einkaleyfastofunnar í leitarvél DesignView.