Helstu skilyrði verndar

 

Til þess að Einkaleyfastofan geti skráð vörumerki þarf merkið að uppfylla ákveðin skilyrði.

Vörumerkið verður að:

  • Hafa aðgreiningarhæfi, þ.e. vera til þess fallið að greina vörur eða þjónustu eiganda þess frá vörum eða þjónustu annarra.
  • Hafa sérkenni, þ.e. vera nægjanlega sérkennilegt svo það skapi tengingu sem vörumerki.
 
Vörumerkið má ekki:
  • Lýsa tegund vöru eða þjónustu, ástandi, magni, notkun, verði, uppruna, eiginleikum o.fl. 
  • Villa fyrir neytendum um tegund vöru eða þjónustu, ástand, magn, notkun, verð, uppruna, eiginleika o.fl.
  • Vera algengt tákn eða orð sem algengt er í viðskiptum eða notað í daglegu máli.
  • Innihalda opinber tákn s.s. fána eða skjaldamerki, nema að fengnu sérstöku leyfi*.
  • Vera of líkt skráðu vörumerki eða heiti á fyrirtæki annars aðila.
  • Fara gegn höfundarétti annars aðila.
 
Vörumerki sem innihalda orð sem ekki er hægt að fá skráð ein og sér eins og t.d. orðin Ísland eða gæðaþjónusta geta þó fengist skráð ef þau eru sett fram í útfærslu eða með mynd sem talin er nægjanlega sérkennileg. Einkarétturinn nær þá til heildarmyndar merkisins en ekki orðanna sem slíkra. Hér má sjá dæmi um þau viðmið sem Einkaleyfastofan fer eftir við mat á skráningarhæfi slíkra merkja:  Dæmi
 

*Heimilt er að nota íslenska fánann í eða með flestum vörumerkjum en sé ætlunin hins vegar að skrá merkið hjá Einkaleyfastofunni þarf leyfi Neytendastofu fyrir notkun fánans að koma til.

Liggi leyfið ekki fyrir þegar umsókn er lögð inn áframsendir Einkaleyfastofan umsóknina til meðferðar hjá Neytendastofu og tilkynnir umsækjanda þar um.

Öll frekari samskipti vegna leyfisins fara fram á milli Neytendastofu og umsækjanda. Þegar ákvörðun Neytendastofu um samþykki eða synjun liggur fyrir er umsókn tekin til meðferðar á ný hjá Einkaleyfastofunni. Á heimasíðu Neytandastofu má finna frekari upplýsingar um málsmeðferð o.fl. Eins er unnt að leita frekari upplýsinga hjá starfsmönnum Einkaleyfastofunnar eða hjá Neytendastofu.

Nánar: lög um vörumerki nr. 45/1997 og reglugerð um vörumerki nr. 310/1997.