Handbók uppfinningamannsins

Inngangur

Að mörgu er að hyggja við þróun vöru út frá uppfinningu.  Tilgangur þessarar handbókar er að veita grunnleiðsögn á öllum stigum þess ferlis.  Ef til vill er nær að tala um ferlið frá hugmynd að stofnun fyrirtækis, ef hugmynd er skilgreind í sinni víðustu mynd, þ.e. þannig að í henni felist nýjar aðferðir, viðskiptahættir, nýjungar í samskiptum o.s.frv.  Þó að hefð sé fyrir því að tengja uppfinningar við nýjungar í framleiðslu á vöru, hefur skilningur aukist á því að það sé ný þekking eða notkun á þekkingu sem er fyrir hendi, sem skiptir meginmáli við sköpun verðmæta.

Handbók þessi er gefin út af Evrópsku einkaleyfastofunni (European Patent Office), en efni hennar fer eigi að síður farið langt út fyrir svið hugverkaréttinda. Þó að hugverkaréttindi séu vissulega nauðsynleg fyrir árangursríka hagnýtingu nýrra hugmynda eru þau aðeins einn hluti af mörgum mikilvægum í nýsköpun.  

Uppfinningar ná oft ekki árangri af ástæðum sem tengjast ekkert hugverkavernd. Dæmi: Lítið kann að vera upp úr því að hafa að sækja um einkaleyfi á uppfinningu ef líkur benda til þess að lítil eftirspurn sé eftir henni á markaði, ef hönnun hennar er óhentug eða ef svo dýrt er að framleiða hana að ekki sé hægt að selja vöruna á raunhæfu verði. Þessum leiðbeiningum er ætlað að hjálpa til við að sneiða hjá mörgum algengum mistökum er tengjast uppfinningum en ekki aðeins þeim sem tengjast hugverkaréttindum.

Lágmarkið áhættu og hafið stjórn á kostnaði

Ef nefna ætti eina reglu sem uppfinningamenn þurfa að læra til að hámarka líkurnar á því að ná árangri, væri hún þessi: Ávallt skal lágmarka áhættu og hafa stjórn á kostnaði.

Áhætta fylgir öllum nýjum fyrirtækjum, en uppfinningar fela í sér aukna áhættu vegna þess að ómögulegt er að segja fyrir um hvernig óþekkt og óreynd vara muni spjara sig á markaði. Ekki er hægt að gulltryggja það, að vel gangi, sama hversu gaumgæfilega markaðurinn hefur verið kannaður. Þetta er þekkt innan fyrirtækja og meðal fjárfesta og er meginástæða þess hversu tregir þeir eru til að veðja á uppfinningar. Alltaf virðist mega finna öruggari leiðir til að ávaxta fé!

Stærstur hluti áhættunnar er fjárhagslegur þannig að öllu máli skiptir að hafa stjórn á kostnaði. Auðvelt er að eyða of miklu þegar uppfinningar eru annars vegar því bjartsýnin á það til að taka völdin. Margar ágætar uppfinningar ná ekki árangri vegna þess að of miklu fé hefur verið eytt of snemma eða ekki í réttu hlutina.

Uppfinningamaðurinn verður að geta sýnt fram á að hann hafi gert allt sem honum var unnt til að forða verkefninu frá áhættu. Þá er ekki aðeins átt við hans eigin áhættu, heldur einnig áhættu mögulegra fjárfesta, leyfishafa og viðskiptafélaga. Sýni uppfinningamaðurinn vilja  til þess að lágmarka áhættu er mun líklegra að hann laði að sér fjárfesta og stuðningsaðila.

Þannig má líta svo á að lágmörkun áhættu sé nauðsynleg til að ná árangri með uppfinningu, jafnvel enn nauðsynlegri en að tryggja hugverkavernd!

Athugasemdir

EPO tekur fúslega við öllum athugasemdum um notagildi og nákvæmni upplýsinga í Handbók uppfinningamannsins enda hjálpa þær við að endurbæta komandi útgáfur. Vinsamlegast sendið athugasemdir ykkar á netfangið academy@epo.org.

Að lokum vonumst við til þess að þessar leiðbeiningar geti orðið að gagni og óskum uppfinningamönnum og hugmyndum þeirra alls hins besta.

Höfundur: Mr. Graham Barker

Eigandi: Evrópska einkaleyfastofan (EPO)©