Félagamerki

Með skráningu félagamerkis geta félög eða samtök öðlast einkarétt fyrir félagsmenn sína til að nota í atvinnustarfsemi sameiginlegt auðkenni fyrir vörur eða þjónustu. Félagamerki gegna því sambærilegu hlutverki og vörumerki og eru sérstök auðkenni félaga eða samtaka.

Um notkun félagamerkis gilda sérstakar reglur þess félags sem um ræðir og samkvæmt þeim er félagsmönnum veittur réttur til notkunar merkis í atvinnustarfsemi. Félagamerki eru því sameiginlegt auðkenni fyrir vörur og/eða þjónustu. Samskonar kröfur (sjá lög um félagamerki, nr. 155/2002) eru gerðar til félagamerkja og vörumerkja um sérkenni og aðgreiningarhæfi.

Félagamerki er hægt að skrá hjá Einkaleyfastofunni. Sama umsóknareyðublað er fyrir skráningu á vörumerki og félagamerki, en tilgreina verður sérstaklega á eyðublaðinu að óskað sé skráningar á félagamerki (haka við sem félagamerki í reit nr. 5.).

Skilyrði verndar og reglur um notkun félagamerkis

Þau félagamerki sem skráð eru í vörumerkjaskrá verða að uppfylla sömu skilyrði og vörumerki fyrir skráningu. Að auki verða reglur er gilda um notkun félagamerkisins að fylgja með umsókn.  Í reglunum skal m.a. koma fram:

  • Hverjum sé heimilt að nota félagamerkið og hvaða skilyrði séu fyrir slíkri heimild.
  • Hvaða afleiðingar óréttmæt notkun félagamerkisins hefur í för með sér.
  • Hvaða réttindi og skyldur eigandi félagamerkisins hefur gagnvart þeim sem notar félagamerkið á óheimilan hátt.

Stjórnvöld, stofnanir, félög eða samtök geta jafnframt öðlast einkarétt á félagamerki sem notað er fyrir vörur eða þjónustu sem eftirlit eða staðlar taka til.

Alþjóðleg skráning félagamerkja

Um alþjóðlega skráningu félagamerkja gildir það sama og fyrir vörumerki. Umsækjandi verður að leggja inn umsókn um skráningu hér á landi áður eða um leið og alþjóðleg umsókn er lögð inn. Félagamerkið verður að vera eins í báðum tilvikum og vöru- og þjónustulistinn má ekki vera víðtækari er fram kemur í landsbundnu umsókninni.