Evrópsk einkaleyfi

Evrópski einkaleyfasamningurinn (enska: "European Patent Convention", EPC) gerir umsækjanda kleift, með einni umsókn, að öðlast einkaleyfi í flestum Evrópuríkjum. Hægt er að hefja ferlið hjá Einkaleyfastofunni, en Ísland hefur verið aðili að samningnum síðan 1. nóvember 2004. Beiðni til að staðfesta evrópskt einkaleyfi á Íslandi, þarf að berast Einkaleyfastofunni innan 4 mánaða frá því að einkaleyfið var veitt hjá EPO, sbr. 77. gr. einkaleyfalaga.

Allt umsóknarferlið fer fram hjá Evrópsku einkaleyfastofunni (enska: "European Patent Office", EPO), en þegar EPO hefur gefið út einkaleyfi, þarf að staðfesta það í þeim löndum sem umsækjandi óskar. Eftir staðfestingu þarf að greiða árgjöld í hverju landi fyrir sig, í sumum tilvikum greiða landsbundin gjöld og leggja inn þýðingar á hlutum einkaleyfis.

Hér má nálgast eyðublöð og gjaldskrá fyrir evrópskar einkaleyfisumsóknir.

Evrópski einkaleyfasamningurinn á íslensku.

Evrópskt einkaleyfi staðfest á Íslandi

Til þess að staðfesta evrópskt einkaleyfi á Íslandi, þarf innan 4 mánaða frá því að einkaleyfið var veitt hjá EPO, sbr. 77. gr. einkaleyfalaga, að leggja inn hjá Einkaleyfastofunni eftirfarandi:

  • Íslenska þýðingu á kröfum einkaleyfisins
  • Hafi einkaleyfið verið veitt á frönsku eða þýsku, þarf að leggja fram íslenska eða enska þýðingu á lýsingu og öðrum hlutum einkaleyfisins. (Hafi einkaleyfið verið veitt á ensku, þarf ekki að leggja fram þýðingu á lýsingu og öðrum hlutum einkaleyfisins.)
  • Upplýsingar um númer einkaleyfis, nafn og heimilisfang einkaleyfishafa
  • Útgáfugjald, sbr. gjaldskrá

Evrópskar umsóknir sem lagðar eru inn 1. nóv. 2004 eða seinna, taka sjálfkrafa til Íslands ef umsækjandi tilnefnir öll aðildarríki. Sama gildir um PCT-umsóknir þar sem EPO er tilnefnt. Athuga ber þó að PCT-umsóknir sem lagðar eru inn fyrir 1. nóv. 2004 geta ekki orðið grundvöllur evrópsks einkaleyfis hér á landi.

Nánar um evrópsk einkaleyfi

EPO notar þrjú tungumál sem öll eru jafn rétthá, þ.e.: ensku, þýsku og frönsku. Ef umsókn er lögð inn á eitthvert þessara mála, fer meðferð hennar fram á því máli. Íslendingar geta lagt inn umsóknir á íslensku en þá þarf þýðing á umsókninni að berast EPO innan 3 mánaða frá umsóknardegi eða 13 mánuðum frá forgangsréttardegi.

Umsókn sem lögð er inn hjá EPO og sem tilnefnir Ísland, hefur sömu réttarstöðu og íslensk einkaleyfisumsókn (sjá þó 83. gr. einkaleyfalaga.).

Umsækjandi getur valið í hvaða aðildarríkjum EPC evrópska einkaleyfið verður staðfest.

Umsækjandi frá aðildarríki þarf ekki umboðsmann gagnvart EPO en sé umboðsmaður tilnefndur, þarf hann að vera sérmenntaður fyrirsvarsmaður sem skráður er á lista hjá EPO (sjá lista yfir íslenska epi umboðsmenn). Hins vegar þarf umsækjandi sem ekki er búsettur á Íslandi að hafa umboðsmann til að koma fram fyrir sína hönd gagnvart Einkaleyfastofunni, þar til einkaleyfið hefur öðlast gildi hér.

Þegar EPO veitir einkaleyfi er tilkynning þess efnis birt í "European Patent Bulletin".

Andmæli gegn evrópsku einkaleyfi skulu borin upp við EPO innan 9 mánaða frá veitingu. Endanlegum ákvörðunum EPO er hægt að áfrýja til áfrýjunarnefndar EPO innan 2 mánaða frá ákvörðuninni. Brot gegn evrópsku einkaleyfi sem er í gildi hér á landi, fara skv. landslögum en dómstólar hér á landi skera úr um slík mál.

Í vissum tilvikum getur íslenskur umsækjandi fengið 20% afslátt af gjöldum noti hann íslensku í umsókn (sjá EPC reglu 6.3 og gr. 21.1. í gjaldskrárreglugerð EPC). Þannig er t.d. hægt að fá 20% afslátt af gjaldi fyrir rannsókn á einkaleyfishæfi ef fært er inná umsóknareyðublað í reit 5, þar sem farið er fram á rannsókn, eftirfarandi setningu á íslensku: "Hér með er farið fram á veitingu evrópsks einkaleyfis og rannsókn á einkaleyfishæfi umsóknarinnar skv. 94. gr.".

X. kafli a. einkaleyfalaga nr. 17/1991, nánar tiltekið ákvæði 75. - 90. gr., fjalla sérstaklega um evrópsk einkaleyfi. Í reglugerð varðandi umsóknir um einkaleyfi o.fl. nr. 477/2012, sbr. síðari breytingar er einnig sérstakur kafli um evrópskar einkaleyfisumsóknir, sbr. ákvæði 77. - 84. gr.