Trademark

eru hvers kyns sýnileg tákn sem notuð eru í atvinnustarfsemi til að greina vörur og þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra. Mikilvægt er að hafa vörumerki skráð, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, til að vernda auðkenni vöru og/eða þjónustu.

 

 

 • Af hverju ætti ég að fá mér einkarétt á vörumerki?

  Vörumerki eru notuð eru til að merkja vörur og þjónustu. Með vörumerki getur þú aðgreint þínar vörur eða þjónustu frá vörum og þjónustu annarra. Vörumerki eru oft verðmætasta eign fyrirtækja. Með því að sækja um vörumerki hjá Einkaleyfastofunni er hægt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að fá merki skrásett og einkarétt á að nota það hér á landi. Meginreglan er þá sú að eigandi merkisins getur komið í veg fyrir að aðrir, í sömu eða svipaðri atvinnustarfsemi, geti notað merki sem eru eins eða lík. Vörumerki geta verið ýmiskonar sýnileg tákn, til dæmis orð og orðasambönd, myndir (lógó), heiti á fyrirtækjum, slagorð, útlit og umbúðir vöru o.fl.

   
  Skoða nánar vörumerki
 • Hvað kostar vörumerki?

  Umsóknargjald er 28.000 kr. og miðast við að sótt er um vörumerki í einum vöru- eða þjónustuflokki. Viðbótargjald fyrir hvern vöru- eða þjónustuflokk umfram einn er 6.000 kr. Umsóknargjöld fást ekki endurgreidd. Skráningin gildir í 10 ár, en gegn greiðslu endurnýjunargjalds má framlengja hana um 10 ár í senn eins lengi og óskað er.

  Skoða gjaldskrá
 • Hvernig sæki ég um vörumerki?

  Til að sækja rafrænt um vörumerki þarf að fylla út umsókn um skráningu vörumerkis. Umsóknin krefst þess að þú hafir rafræn skilríki. Eyðublað á pappírsformi er hægt að nálgast á skrifstofu Einkaleyfastofunnar. Umsóknir á pappír þarf að afhenda í afgreiðslu Einkaleyfastofunnar eða senda með pósti. Ekki er tekið við umsókn í tölvupósti þar sem hún krefst ávallt undirritunar. 

  Sækja um
 • Hvað gerist eftir að ég hef lagt inn umsókn um vörumerki?

  Eftir að umsókn um vörumerki hefur verið lögð inn og umsóknargjald hefur verið greitt er umsóknin rannsökuð. Rannsóknin tekur að meðaltali 10 vikur, en í henni kannar Einkaleyfastofan hvort merkið uppfylli ákveðin skilyrði til skráningar. Uppfylli vörumerkið öll skilyrðin er það skráð og birt í ELS-tíðindum, sem gefin eru út mánaðarlega á heimasíðu stofnunarinnar. Umsækjanda er einnig sent skráningarskírteini um einkarétt á merkinu. Uppfylli merkið ekki skilyrðin er því synjað að svo stöddu. Umsækjanda er þá sent bréf og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Umsóknargjöld er ekki endurgreidd.

  Nánari upplýsingar
 • Hverjir eru kostir þess að sækja um vörumerki?

  Það er ekki skylda að skrá vörumerki, en kostir sem fylgja skráningu eru þeir (a) að hægt er að fá úr því skorið, áður en farið er út í kostnaðarsamt markaðsstarf, hvort merkið sé þess eðlis að hægt er að fá einkarétt á því, (b) að notkun á merkinu þarf ekki að vera hafin til að fá einkarétt á því og (c) að mikilvægt er að hafa merkið skráð ef verja þarf það fyrir ágangi annarra.

  Meira um kosti vörumerkjaskráningar
 • Hvernig sæki ég um vörumerki erlendis?

  Vörumerki skráð hjá Einkaleyfastofunni gildir einungis á Íslandi. Hjá Einkaleyfastofunni er einnig hægt að sækja um vörumerki erlendis með því að fylla út umsókn um alþjóðlega skráningu vörumerkis. Alþjóðlega umsóknin þarf að byggja á íslenskri vörumerkjaumsókn eða -skráningu. Í alþjóðlegum gagnagrunnum Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) og Vörumerkjaskrifstofu Evrópusambandsins (OHIM) getur þú kannað hvort vörumerkið þitt er frátekið.

  Umsóknir erlendis