Einkaleyfi erlendis

Einkaleyfi sem veitt er af Einkaleyfastofunni er einungis verndað á Íslandi.

Umsókn á Íslandi skapar það sem kallað er forgangsréttur og sé ætlunin að fara á erlenda markaði með uppfinninguna þarf að tengja erlendar umsóknir við þá íslensku með því að sækja um erlendis innan 12 mánaða. Enginn tími tapast þ.a.l. ef fyrst er sótt um hér á landi og fyrstu viðbrögð könnuð áður en umsóknarferli erlendis er hafið.

Fjárfesting á einkaleyfum erlendis stjórnast af viðskiptalegum hagsmunum, samkeppnisumhverfi og nýtingartíma. Reynslan hefur sýnt sig að val á löndum sem sótt er um ræðst mjög oft af mikilvægi markaðssvæðis og þarf því að undirbúa vel er lagt er af stað í umsóknarferli erlendis.

Til þess að fá einkaleyfi í öðrum löndum þarf að gera eitthvað af eftirfarandi:

  • Fara í alþjóðlegt umsóknarferli (PCT). Ísland gerðist aðili að Samstarfssáttmálanum um einkaleyfi (e. Patent Cooperation Treaty, PCT) árið 1995. Sáttmálinn er í umsjá Alþjóðahugverkastofunarinnar (e. World Intellectual Property Organisation, WIPO). Aðild að PCT-sáttmálanum gerir íslenskum umsækjendum kleift að sækja um á einum stað í öllum aðildarríkjum sáttmálans (alls 148 ríkjum) með einni umsókn. Leitir og rannsóknir eru framkvæmdar með samræmdum hætti, en eftir 30/31 mánuð frá fyrsta umsóknardegi þarf að velja þau lönd sem ætlunin er að vernda uppfinninguna. Mat á umsókninni fer fram í hverju ríki fyrir sig.
  • Sækja um evrópskt einkaleyfi hjá Evrópsku einkaleyfastofunni, EPO. Evrópski einkaleyfasamningurinn (e. European Patent Convention, EPC) gerir umsækjanda kleift að sækja um einkaleyfi með einni umsókn í þeim 38 evrópuríkjum sem aðilar eru að EPC. Eftir veitingu einkaleyfis þarf að staðfesta gildistöku í hverju landi fyrir sig. 
  • Sækja um einkaleyfi í hverju landi fyrir sig. Ef aðeins er ætlunin að sækja um vernd í 1-3 löndum getur verið hagkvæmt að óska eftir vernd í hverju landi fyrir sig.