Efnislegt innihald umsóknar

Efnislegt innihald umsóknar auk umsóknareyðublaðs skiptist niður í: lýsingu á uppfinningunni, einkaleyfiskröfur, ágrip, þ.e. stutt samantekt á uppfinningunni, teikningar ef við á, umboð í frumriti ef umsækjandi er með umboðsaðila og forgangsréttarskjöl ef umsókn sækir forgangsrétt til eldri umsóknar.

Einkaleyfi eru veitt fyrir tæknilegum uppfinningum í eftirfarandi útfærslum:  Búnaður, aðferð, afurð, notkun.

  • Með einkaleyfi á búnaði er átt við það sem flestir líta á sem hefðbundið einkaleyfi, þ.e. einkaleyfi á einhvers konar tæki eða vél.
  • Með aðferð er t.d. átt við aðferð til framleiðslu matvæla eða lyfja.
  • Með einkaleyfi á afurð er átt við tæknilegt frálag ferils, t.d. lyf eða annað slíkt.
  • Hægt er að fá einkaleyfi á nýrri notkun þekktra hluta, þ.e. hægt er að setja saman þekkt fyrirbæri og nota þau með nýjum hætti.

Einungis má sækja um eina uppfinningu í hverri umsókn. 

Til að sjá dæmi um einkaleyfisumsóknir er ágætt að skoða evrópsk einkaleyfi, t.d. í gagnabanka Espacenet en kröfur um uppbyggingu einkaleyfisumsókna hér á landi eru að evrópskri fyrirmynd.

Lýsing

Lýsing umsóknar á að vera uppbyggð með eftirfarandi hætti:

  • Inngangur með heiti uppfinningar, ásamt upplýsingum um tækni og notkunarsvið.
  • Umfjöllun um þekkta tækni á viðkomandi sviði með tilvísunum í viðeigandi rit, t.d. eldri einkaleyfaskjöl.
  • Markmið uppfinningarinnar, þ.e. hvert vandamálið er sem leyst er með uppfinningunni, hvernig það er leyst í megindráttum og hvernig hagnýta megi uppfinninguna í atvinnulífi ef það er ekki augljóst.
  • Ítarleg lýsing á uppfinningunni með tilvísun í teikningar ef við á.
  • Listi yfir teikningar ásamt útskýringum á þeim ef við á.
  • Dæmi um nánari útfærslur uppfinningarinnar sem styðja nægilega við einkaleyfiskröfurnar, með vísan í teikningar ef við á.

Einkaleyfiskröfur

Einkaleyfiskrafa á að gera skýra grein fyrir því sem á að vernda með einkaleyfinu og hvaða tækni sé nauðsynleg til þess að virkni þess sem vernda á verði náð.  Þær mega vera eins margar og hver vill en greiða þarf viðbótargjald ef þær eru fleiri en tíu.

Líta má á kröfu sem svo að hún skiptist í tvo hluta, inngang og auðkennishluta, þar sem orðasambandið „einkennist af“ eða annað sambærilegt, er auðgreinanlegt og skilur á milli hlutanna.  Í innganginum á að koma fram heiti uppfinningarinnar og það tæknisvið sem nýnæmi uppfinningarinnar miðast við, þ.e. þekkt tækni sem unnið er útfrá.  Í auðkennishlutanum eiga að koma upplýsingar um það sem er nýtt og sérstakt við uppfinninguna, þ.e. í smáatriðum það sem maður vill fá verndað.

Dæmi:  Flokkunarvél til að flokka fisk sem samanstendur af færibandi og nema sem einkennist af því að neminn er staðsettur....

Kröfur geta verið sjálfstæðar eða ósjálfstæðar.  Ósjálfstæðar kröfur vísa í sjálfstæða kröfu:

Dæmi:  Flokkunarvél skv. kröfu 1, sem einkennist af....

Gott er að vísa í teikningar í kröfunum, helst með tilvísunartáknum í sviga.

Dæmi:  Flokkunarvél (1) með nema (2)...

Einkaleyfiskrafa má ekki fjalla um neitt sem er óviðkomandi uppfinningunni.  Þá á ekki að koma fram óskhyggja um það sem maður vill að uppfinningin geri:

Dæmi:  Flokkunarvél sem flokkar mun nákvæmar en áður hefur þekkst....

Einkaleyfiskröfur verða að styðjast við staðreyndir, þ.e. í kröfunni ætti í staðinn að fjalla um í smáatriðum  hvaða tækni er notuð til þess að flokkunarvélin flokki nákvæmar en aðrar vélar.

Ágrip

Ágrip á að innihalda stutt yfirlit yfir það sem fram kemur í lýsingu, einkaleyfiskröfum og teikningum.  Í ágripinu skal koma fram heiti uppfinningarinnar sem og lýsing á því tæknilega vandamáli sem uppfinningin fjallar um, hvernig henni er í grundvallaratriðum ætlað að stuðla að lausn þess og hvert aðalnotkunarsvið uppfinningarinnar sé.  Ágripið er til þess gert að auðvelda áhugasömum að meta innihald umsóknarinnar. 

Teikningar

Á teikningum eiga að koma fram þau atriði sem nauðsynleg eru til skilnings á einstökum hlutum uppfinningarinnar og skal í lýsingu og á teikningum auðkenna þau sem sömu bókstöfum eða tölum.  Aðeins mega vera mjög stuttar athugasemdir eða lýsandi tákn til útskýringar á teikningum, t.d. „loft“, „vatn“, „upp“, „niður“.