Byggðarmerki

Skilyrði umsóknar

Byggðarmerki eru auðkenni sveitarfélaga. Byggðarmerki þurfa að uppfylla nokkuð nákvæmar reglur um útlit sem byggðar eru á meginreglum skjaldarmerkjafræðanna.

Byggðarmerki er ekki unnt að skrá ef það hefur að geyma án heimildar þjóðfána, ríkistákn, opinber alþjóðamerki, skjaldarmerki, opinber skoðunar- eða gæðamerki, opinbera stimpla, skráð vörumerki, skráð félaga- eða gæðamerki, heiti á atvinnustarfsemi eða annað sem til þess er fallið að villst verði á því og framangreindum merkjum.

Hér er að finna almennar upplýsingar um byggðarmerki.

Til þess að skoða bæklinginn þarf forritið Acrobat Reader frá Adobe sem hægt er að fá á heimasíðu Adobe.
Sé smellt á myndina opnast skjalið sem þá er hægt að prenta út.

Umsóknarferli og skráning

Umsókn um skráningu byggðarmerkis skal senda Einkaleyfastofunni á sérstöku eyðublaði. Fyrir umsóknina þarf að greiða ákveðið gjald.

Ákvörðun um skráningu er tekin af Einkaleyfastofunni á grundvelli umsagnar frá faglegum ráðgjafa eða ráðgjöfum.

Ef byggðarmerki fullnægir þeim skilyrðum sem gerð eru til þess er það skráð og birt í ELS-tíðindum.

Með skráningu byggðarmerkis fær sveitarfélagið einkarétt á að nota merkið.

Lagaákvæði og reglugerð

Ákvæði um byggðarmerki er að finna í 6. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011:

Sveitarstjórn er heimilt að ákveða byggðarmerki fyrir sveitarfélag. Skráning byggðarmerkis veitir sveitarfélagi einkarétt á notkun þess. Byggðarmerki skulu skráð hjá Einkaleyfastofu sem veitir umsóknum viðtöku og kannar skráningarhæfi merkjanna.
Viðkomandi ráðherra setur nánari reglur um skráningu byggðarmerkja, m.a. varðandi umsóknir og meðferð þeirra, skilyrði fyrir skráningu, ógildingu, birtingu og gjöld fyrir umsóknir og vottorð úr byggðarmerkjaskrá.

Reglugerð nr. 112/1999 um skráningu byggðarmerkja.