Andmælaréttur

Samkvæmt 22. gr. vörumerkjalaga er heimilt að andmæla skráningu vörumerkis eftir birtingu í ELS-tíðindum. Andmælum ber að skila skriflega, í tvíriti, til Einkaleyfastofunnar innan tveggja mánaða frá birtingardegi. Andmælin skulu rökstudd og þeim fylgja tilskilið gjald.

Eftirfarandi upplýsingar eiga að koma fram í andmælum:

1. nafn andmælanda og heimilisfang ásamt nafni umboðsmanns (ef á við);

2. númer þeirrar skráningar sem andmælt er og númer á tölublaði því sem skráningin var birt í;

3. helstu rök fyrir kröfu um ógildingu skráningar.

Einkaleyfastofan tilkynnir eiganda skráningar um framkomin andmæli um leið og þau berast. Báðum aðilum er gefið færi á að leggja fram athugasemdir/gögn til stuðnings máli sínu.

Þegar báðir aðilar hafa fengið tækifæri til að tjá sig athugar Einkaleyfastofan að nýju hvort skráningin haldi gildi sínu eða ekki (í samræmi við ákvæði 19. gr).

Réttur til áfrýjunar   

Niðurstöðu Einkaleyfastofunnar í andmælamálum er samkvæmt 1. mgr. 63. gr. vörumerkjalaga, unnt að áfrýja til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar innan tveggja mánaða frá ákvörðun stofnunarinnar eða innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar til dómstóla, sbr. 3. mgr. 63. gr. laganna.

Frekari upplýsingar um andmæli er hægt að nálgast hjá starfsmönnum Einkaleyfastofunnar.