Alþjóðleg hönnun

Um alþjóðlegar hönnunarumsóknir gilda ákvæði Genfarsamningsins frá 2. júlí 1999 (The Geneva Act of the Hague Agreement concerning the International Registration of Industrial Designs) og viðeigandi ákvæði í hönnunarlögum. Ísland hefur verið aðili að Genfarsamningnum frá árinu 2001, en hann varð virkur 1. apríl 2004. Frá þeim tíma hafa íslenskir lögaðilar eða einstaklingar búsettir hér á landi getað lagt inn umsókn um alþjóðlega skráningu hönnunar. Jafnframt hafa erlendir aðilar getað fengið hönnun sína verndaða hér á landi frá sama tíma í gegnum alþjóðlega skráningarkerfið. 

Hönnun sem skráð eru hjá Einkaleyfastofunni er einungis vernduð á Íslandi. Ef markaðssetja á vöru erlendis með sérstæðri hönnun kemur sér vel að hafa hönnun skráða hér á landi. Þá er líka unnt að nýta sér reglur um forgangsrétt, en í því felst að hægt er að leggja inn umsókn í öðrum ríkjum innan 6 mánaða frá umsóknardegi hér á landi. Hönnunin nýtur þá verndar í viðkomandi ríki frá umsóknardegi hér.  

Umsókn

Umsókn um alþjóðlega skráningu er hægt að leggja inn hjá Einkaleyfastofunni eða Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO) í Genf. Umsókn þarf að vera á ensku og á sérstöku eyðublaði. Í umsókn um alþjóðlega skráningu þarf að tilgreina í hvaða ríkjum er óskað skráningar. Hægt er að vernda hönnunina í öllum aðildarríkjum Genfarsamningsins. Leiðbeiningar á ensku - umsóknareyðublað og rafræn sending.

Athugið að WIPO býður umsækjendum að senda inn umsókn á rafrænu formi (þá er unnt að greiða með kreditkorti): E-Filing

Gjöld

Umsýslugjald greiðist til Einkaleyfastofunnar í samræmi við gjaldskrá, en önnur gjöld vegna umsóknarinnar greiðast beint til WIPO.

Á heimasíðu WIPO er að finna reiknivél, þar sem hægt er að reikna út tilskilin gjöld. Grunngjald fyrir alþjóðlega umsókn fer m.a. eftir fjölda ríkja sem óskað er skráningar í.

Gjaldskrá fyrir alþjóðlega skráningu hönnunar.

Forgangsréttur

Ef markaðssetja á vöru erlendis með sérstæðri hönnun kemur sér vel að hafa hönnun skráða hér á landi. Ekki er gert að skilyrði að sótt hafi verið um skráningu hönnunar hér á landi, til þess að hægt sé að sækja um skráningu alþjóðlegrar hönnunar. Ef hins vegar umsækjandi hefur skráð hönnun hér á landi og hyggst leggja inn alþjóðlega umsókn skal það gert innan 6 mánaða frá umsóknardegi. Þá getur umsækjandi notfært sér forgangsrétt og telst þá alþjóðlega umsóknin  fram komin samtímis hönnuninni hér á landi. 

Alþjóðlegar skráningar er hægt að endurnýja rafrænt, sjá: E-Renewal.