Alþjóðleg einkaleyfi

Ísland gerðist aðili að Samstarfssáttmálanum um einkaleyfi (e. Patent Cooperation Treaty, PCT) árið 1995. Sáttmálinn er í umsjá Alþjóðahugverkastofunarinnar (e. World Intellectual Property Organisation, WIPO). PCT sáttmálinn kveður á um samræmdar reglur aðildarríkjanna varðandi ferli alþjóðlegra umsókna, þar með talið forrannsókn á nýnæmi og einkaleyfishæfi þeirra. Veiting einkaleyfa, fer eftir sem áður, fram í hverju landi fyrir sig og er háð reglum viðkomandi lands.

Umsókn

Aðild að PCT sáttmálanum felur í sér að aðilar með íslenskt ríkisfang/búsetu geta lagt inn alþjóðlega umsókn um einkaleyfi hjá Einkaleyfastofunni. Einkaleyfastofan sendir umsóknina til WIPO og í rannsókn til alþjóðlegrar rannsóknarstofnunar. Íslenskir umsækjendur geta valið milli Nordic Patent Institute (NPI), Sænsku einkaleyfastofnunarinnar (PRV) og Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) sem rannsóknastofnun fyrir umsóknina.

Í umsókn eru þau ríki sem aðilar eru að sáttmálanum öll tilnefnd sem eru öll helstu iðnríki heims þar á meðal Bandaríkin, Kína, Japan, Bretland, Frakkland, Þýskaland auk allra Norðurlandanna. Þeir sem lagt hafa inn PCT-umsókn og vilja yfirfæra hana til Íslands þegar alþjóðlega ferlinu lýkur, skulu gera það innan 31 mánaðar frá forgangsréttardegi, eða umsóknardegi ef ekki er krafist forgangs. Frestur til yfirfærslu er mismunandi milli landa.

Með því að velja PCT einkaleyfaferlið þarf umsækjandi einungis að leggja inn eina umsókn auk þess sem hann fær lengri umþóttunartíma til að ákveða hvar einkaleyfið á að taka gildi með þeim kostnaði sem því fylgir. Í PCT-ferlinu er unnt að fá rannsókn á umsókninni allt að þrisvar sinnum. Niðurstöður úr fyrstu rannsókn (International Search Report/Written opinion, ISR/WO), sem greitt er fyrir við innlögn umsóknar hjá Einkaleyfastofunni, liggja iðulega fyrir um 16 mánuðum frá forgangsréttardegi. Síðari athuganir eru á hinn bóginn valkvæðar og er beiðnum og greiðslum vegna þeirra beint til WIPO. Sé óskað eftir forathugun á einkaleyfishæfi (International Preliminary Report on Patentability, IPRP), þarf umsókn þess efnis að hafa borist WIPO innan þriggja mánaða frá viðtöku fyrstu rannsóknarniðurstaðna eða 22 mánaðum frá forgangsréttardegi, hvort heldur sem fyrr er. Þá á umsækjandi þess kost að óska eftir gerð viðbótarleitarskýrslu (Supplementary International Search Report, SISR), en slíka beiðni er unnt að leggja fram hvenær sem er áður en 19 mánuðir eru liðnir frá forgangsréttardegi.

Á heimasíðu WIPO má finna nánari upplýsingar um PCT einkaleyfaferlið og viðmót þar sem umsækjendur geta á auðveldan og einfaldan hátt reiknað út hin ýmsu tímamörk í PCT einkaleyfaferlinu. 

Hér má nálgast eyðublöð og gjaldskrá fyrir alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir (PCT-umsóknir).

PCT umsókn yfirfærð til Íslands

Ef yfirfæra á PCT grunnumsókn til Íslands, þarf það að gerast innan 31 mánaðar frá forgangsréttar- eða umsóknardegi. sbr. 31. gr. einkaleyfalaga nr. 17/1991. Við yfirfærslu, er ferlið það sama og fyrir landsbundnar umsóknir, þannig eru eyðublöð og gjöld þau sömu og meðhöndlun áþekk.

Hér má nálgast eyðublöð og gjaldskrá fyrir PCT-umsóknir sem yfirfæra skal til Íslands.