Almennt um hönnun

Frá sjónarhóli hugverkaréttar er með hugtakinu hönnun átt við útlit vöru eða hluta vöru sem ræðst af einstökum þáttum eða skreytingu hennar. Útlit vörunnar ræðst fyrst og fremst af formi hennar þó aðrir þættir geti einnig haft áhrif, svo sem litur og efni. 

Hönnun afmarkast af því útliti vöru sem hægt er að nema sjónrænt. Þó svo að vara hafi tæknilega virkni er það aðeins útlit hennar sem fæst verndað með hönnunarvernd.

Vörur geta verið bæði handunnar og fjöldaframleiddar. Dæmi um nokkrar vörur sem notið geta hönnunarverndar eru húsgögn, fatnaður, umbúðir, vélbúnaður, verkfæri, matvara og skartgripir. Vara þarf ekki að vera í þrívíðu formi til að njóta verndar. Hún getur verið i tvívídd, svo sem skjámynd á tölvu, grafísk tákn og skreyting á annarri vöru, t.d. veggfóðri.

Því frumlegri og nýstárlegri sem hönnunin er þeim mun sterkari er verndin.

Mikilvægt að skrá hönnun ef verja þarf hana fyrir ágangi annarra. Skráð hönnun verndar útlit vöru og eiganda skráðrar hönnunar er tryggður eignarréttur gegn afritun eða eftirlíkingu. Skráning hönnunar skapar eiganda hennar einnig traustari grundvöll ef til ágreinings kemur, t.d. til að krefjast lögbanns.

Hönnunarréttur

Hönnunarréttur er eignaréttur sem getur verið verðmætur. Rétt til hönnunar má framselja eða veita öðrum leyfi til að nota (nytjaleyfi). Nytjaleyfishafi má ekki framselja rétt sinn nema um það hafi verið samið. Aðilaskipti, m.a. nytjaleyfi, veðsetning hönnunar og aðför í hönnun skal færa í hönnunarskrá að beiðni viðkomandi aðila. Ef slíkt er fyrirhugað er ótvíræður kostur að eiga skráða hönnun. 

Neytendur tengja hönnuði og vandaða vöru gæðum í síauknum mæli og því er virðing og orðstír hönnunar mikilvægur. Vara sem nær vinsældum verður því auðþekkt hönnun, sem aukið getur heildarverðmæti vörunnar til muna.
 
Skráning og vernd hönnunar stuðlar að efnahagslegri þróun með því að hvetja til nýsköpunar í iðnaði og einnig í hefðbundnum listum og handverki í heiminum.

Bæklingur með almennum upplýsingum um hönnun.

Til þess að skoða bæklinginn þarf forritið Acrobat Reader frá Adobe sem hægt er að fá á heimasíðu Adobe.